Hvað gerum við?

Þjónustu- og nýsköpunarsvið borgarinnar sinnir fjölbreyttum verkefnum með það að markmiði að bæta þjónustu við borgarbúa.

Stafræn Reykjavík

Skrifstofa stafrænnar Reykjavíkur leiðir stafræna vöruþróun hjá borginni sem og teymi stafrænna leiðtoga. Starfsfólk stafrænnar Reykjavíkur sinnir einnig faglegri verkefnastjórnun í innleiðingu hug- og tæknibúnaðar, stýrir umbótastofu og leiðir fag- og samráðshópa í stafrænum lausnum. Skrifstofan leiðir einnig innleiðingu á verkefnaskrám og mats-matrixum (fylkjum) þvert á svið borgarinnar. Vefþróun á vefum borgarinnar heyrir undir eininguna og þar er unnið eftir stöðlum algildrar hönnunar og notendamiðaðrar nálgunar.

Verkefnastofa Stafrænnar Reykjavíkur samanstendur af 11 öflugum verkefnastjórum sem hafa ólíkan bakgrunn og fjölbreytta reynslu í stýringu verkefna. Verkefnastjórarnir stýra verkefnum þvert á borgina og beita til þess samræmdum aðferðum sem miða að því að koma hlutum í verk. Markmiðið með því að stýra verkefnum með þessum hætti er til að auka gæði, tryggja framgang þeirra og draga úr líkunum á því að góð verkefni dagi ekki uppi. Alls eru nú um 20 verkefni í vinnslu hjá verkefnastofunni og styðja þau flest við innviðauppbyggingu í upplýsingatækni og stafræna þróun borgarinnar. Meðal þessara verkefna má nefna myndræna framsetningu á innkaupaferli, fræðslukerfi fyrir borgina, eignaumsjónakerfi, lausn fyrir framlínuþjónustu borgarinnar, uppsetningu á upplýsingaskjáum og fjarfundarbúnaði í fundarherbergjum, umsýslukerfi fyrir Borgarskjalasafnið, nýr vefur fyrir Borgarskjalasafnið, innleiðing Hlöðunnar, endurskipulagning fjármála hjá UTR, innleiðing á kerfi til að halda utan um frístundastyrki og kaup á kerfi fyrir framleiðslueldhús velferðarsviðs.

Hér að neðan eru fleiri dæmi um verkefni sem hafa komið frá Stafrænni Reykjavík:

Hönnunarkerfið Hanna (e. Hanna(h) design system)
Kerfislæg uppsetning sem nær yfir birtingaímynd borgarinnar, rödd (e. tone of voice) upplýsingar um uppsetningu á framendaforritun í formsafni (e. pattern library) erkitýpur íbúa, leiðbeiningar fyrir t.d. notendasögur, vinnustofur o.fl.

Hönnunarkerfið er samansafn af reglum, aðstoð og leiðsögn fyrir þá sem vinna með veflæg tól og verður leiðarvísir fyrir þá sem koma að uppsetningu á vefverkefnum fyrir Reykjavíkurborg.

Stór hluti hönnunarkerfisins er öllum opin á slóðinni: design.reykjavik.is

Nýtt vefsvæði Reykjavíkurborgar
Uppsetning á nýju notendaviðmóti á vef Reykjavíkurborgar. Unnið eftir aðferðafræði notendamiðaðrar hönnunar við að fara yfir mest allt efni, endurskrifa þjónustulýsingar út frá aðgengissjónarmiðum og öll uppröðun efnis taki mið af einfaldri og skýrari leiðum að upplýsingum. Innsetning á grafík, teikningum, texta og útliti eftir formsafni og litapallettum.

Skrifstofa þjónustuhönnunar

Leiðir innleiðingur þjónustustefnu borgarinnar. Í því felst að vera drífandi í þjónustuumbreytingu og breyttu viðhorfi og aðferðafræði til úrlausn verkefna og áskoranna.

Þjónustuhönnun felur í sér notendamiðaða nálgun við úrlausn allra verkefna, hvort sem þau séu starfræns eðlis eða hvort þau eiga sér stað í raunheimum. Notendamiðuð nálgun felur í sér að við hlustum á notendur og tölum við þá og hönnum þannig lausnir sem nýtast þeim og svarar þeirra áskorunum.

Þjónustuhönnun spilar lykilhlutverk þegar kemur að stafrænum umbreytingum þar sem höfuð markmiðið með stafrænni vegferð er að bæta þjónustu.

Gagnaþjónusta Reykjavíkurborgar

Gagnaþjónusta Reykjavíkurborgar er miðstöð gagnadrifinnar ákvörðunartöku innan Reykjavíkurborgar. Okkar markmið er að skapa virði úr gögnum borgarinnar. Teymið smíðar hinar ýmsu gagnalausnir og fer fyrir greiningu og miðlun gagna, þróun tölfræðilíkana, og sjálfvirknivæðingu gagnasöfnunar, hreinsunar og auðgunar gagna.

Eitt viðamesta verkefni Gagnaþjónustunnar er þróun gagnalóns og vöruhúss gagna fyrir Reykjavíkurborg. Gagnaþjónustan vinnur jafnframt ítarlegar greiningar fyrir minnisblöð til borgarráðs og fagráða innan borgarinnar, sem upplýsir stjórnendur um stöðu mála og styður við faglega stjórnsýslu. Gagnaþjónustan þróar jafnframt tölfræðilíkön, meðal annars til að spá fyrir um álagstíma í þjónustuveri borgarinnar. Teymið smíðar hin ýmsu smáforrit sem bæta þjónustu borgarinnar til íbúa Reykjavíkur. Sem dæmi má nefna rafrænt sorphirðudagatal Reykjavíkurborgar, þar sem íbúum gefst kostur á að slá inn heimilisfang sitt og fá upplýsingar um hvenær rusla- og endurvinnslutunnur verða tæmdar næst, auk þess sem sýndar eru upplýsingar um næstu grenndarstöð, bestu leiðina þangað, og hve mikill kolefnissparnaðurinn er af því að rölta á næstu grenndarstöð.

Upplýsingatækniþjónusta Reykjavíkur

Upplýsingatækniþjónusta Reykjavíkur (UTR) er ein af sex skrifstofum á Þjónustu og nýsköpunarsviði sem er ætlað að vera breytingarafl Reykjavíkur í nýtingu upplýsingatækni og nýsköpun er varðar breytt verklag starfsmanna og íbúa. UTR er eitt stærsta ef ekki stærsta einstaka upplýsingatækniumhverfi Íslands og sennilega það tæknilega flóknasta þegar kemur að tæknilegri þjónustu fyrir starfsmenn, nemendur í leik og grunnskólum ásamt íbúum Reykjavíkur.

Árið 2019 leitaði UTR til Gartners alþjóðlegs ráðgjafafyrirtækis á sviði upplýsingatækni varðandi sérfræðiráðgjöf á núverandi stöðu upplýsingatækniinnviða, rekstri og þeirri tæknilegri þjónustu sem UTR var að veita. Í gegnum Gartner var einnig haft samband við aðrar erlendar borgir og sveitafélög til að sjá hvert þau væru að stefna í stafrænni vegferð. Niðurstaðan eftir að samstarfið hafði staðið yfir í eitt og hálft ár var að úthýsa rekstri og þjónustu og innhýsa hugbúnaðarþróun með að byggja upp hugbúnaðarþróunarteymi sem væru sambland af starfsmönnum og verktökum til að styðja við stafrænu vegferð Reykjavíkur sem byggir mikið á að rafvæða sjálfvirkni ferla, samþætta gögn og upplýsingar ásamt að byggja upp þjónustugáttir fyrir starfsmenn og íbúa til að nálgast upplýsingar og fylgjast með umsóknum og erindum sem send eru inn.

Það eru umfangsmiklar áskoranir að koma til okkar á næstu þremur árum sem Reykjavík ætlar að setja umfangsmikla fjárfestingu í upplýsingatækniinnviði og stafræna umbreytingu til að gera borgina fremst meðal jafningja og við öll á Þjónustu- og nýsköpunarsviði fáum þarna tækifæri sem fáum gefst að taka þátt í umfangsmiklum verkefnum og stefnum að mörgum sigrum sem vonandi starfsmenn og íbúar geti verið stoltir af.