Snjallborgin Reykjavík

Reykjavík situr annað árið í röð í fimmta sæti á lista viðskiptaháskólans IESE yfir sjálfbærustu og „snjöllustu“ borgir heims. 

Í tilkynningu frá IESE kemur fram að listinn eigi að gefa góða mynd af framþróun borga og er við gerð hans tekið mið af ýmsum þáttum sem tengjast til dæmis hagkerfi, loftslagsmálum, samgöngum og borgarskipulagi svo eitthvað sé nefnt. 

Reykjavík situr í fimmta sæti listans á eftir París í því fjórða og Amsterdam sem er í þriðja sæti. Þá er London á toppi listans og New York í öðru sæti. Kaupmannahöfn er einnig meðal tíu efstu borganna, í áttunda sæti, og hafa Danir fjallað töluvert um þann árangur sinn. 

Í umfjöllun um Reykjavík kemur fram að helstu styrkleikar borgarinnar liggi í loftslagsmálum og er Reykjavík í fyrsta sæti í þeim þætti en einnig stendur borgin sig vel í þáttum eins og tækniþróun og samheldni borgarbúa. 

Mikil áhersla hefur verið lögð á stafrænar umbreytingar og nýsköpun hjá borginni og er sú vegferð rétt að byrja. Næstu þrjú ár munu verða áframhaldandi tími breytinga með það að markmiði að nýta tæknina til að auka lífsgæði borgarbúa. 

Stafræn umbreytingarverkefni hjá Reykjavíkurborg eru framkvæmd af teymi sem starfar ótruflað við gagngera umbreytingu eins þjónustuferils hjá borginni í fastan tíma, sem viðkomandi svið borgarinnar hefur ákveðið að setja í forgang. Teymin vinna í umhverfi áskoranna og breytinga kúlturs þar sem eftirfarandi þættir eru hafðir að leiðarljósi: 

  • Meginmarkmið er skýrt og stefnumótandi (dæmi: Gera umsóknir um fjárhagsaðstoð og afgreiðslu þeirra stafræna) 
  • Þjónustuupplifun íbúa er alltaf leiðarljósið, en lausnir þurfa bæði að styðja við framúrskarandi upplifun notenda (front stage) og sjálfvirkni og góða upplifun þeirra sem þjónusta íbúana (back stage). 
  • Mælistikur hverrar umbreytingar liggja fyrir í upphafi og mæla æskilegar útkomur og árangur (dæmi: tími sem tekur að afgreiða umsókn, ánægja umsækjenda með þjónustuupplifun) 
  • Skuldbinding yfirstjórnenda að fjármagna og styðja verkefnið er skýr og sýnileg, en framkvæmdin er drifin af sérfræðingum og verkefnaleiðtogum.